Innlent

Gleymdist að loka bensínloki

MYND/Vilhelm

Sjúkraflug á Vestfirði dróst úr hömlu á nýársnótt, meðal annars vegna þess að það gleymdist að loka bensínloki á sjúkraflugvélinni.

Landsflug hætti sjúkraflugi til Vestfjarða um áramótin og flugfélagið Mýflug tók við 1. janúar. Flugfélag Íslands annaðist hins vegar sjúkraflugið á nýársnótt, þegar það tók þrjá klukkutíma að fá flugvél á Bíldudal til að flytja ungan mann undir læknishendur í Reykjavík sem slasaðist á auga af völdum flugelda.

Ýmsir samverkandi þættir ollu töfunum, en Flugfélag Íslands vinnur að gerð skýrslu um málið sem skilað verður til Tryggingarstofnunar. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, segir tilkynningu hafa borist klukkan tuttugu og fimm mínútur yfir miðnætti um hugsanlegt útkall og staðfesting korter í eitt. Undir venjulegum kringumstæðum er gert ráð fyrir því að það taki þrjá stundarfjórðunga að fara af stað. Þessa nótt tók það 69 mínútur en bæði þurfti að útbúa flugplan fyrir Bíldudal og misræmi var í mælum flugvélarinnar. Vélin fór í loftið tvær mínútur í tvö og tók flugið um eina klukkustund og korter. Flugvélin lenti því ekki á Bíldudal fyrr en um klukkan þrjú um nóttina. Dæla þurfti bensíni á vélina á Bíldudal og fljótlega eftir að vélin var komin í loftið á ný kom í ljós að annað bensínlokið var opið og þurfti því að snúa vélinni aftur við á Bíldudal. Vélin lenti því ekki í Reykjavík fyrr en klukkan hálf fimm.

Pilturinn er nú á augndeild Landspítalans með töluverða áverka á hægra auga. Læknar telja ljóst að hann hafi hlotið varanlegan skaða á auganu, en töfum á sjúkraflugi sé ekki um að kenna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×