Innlent

Búist við frekari samdrætti á fasteignamarkaði

Mynd/Hörður

Um það bil 30% samdráttur hefur orðið í veltu á fasteignamarkaði síðan í mars, og blikur eru á lofti um enn frekari samdrátt.

Samkvæmt samantekt KB banka var þinglýst um það bil 200 kaupsamningum í viku fyrir rúmum þremur mánuðum, en sú tala var fallin niður í 117 í síðustu viku. Verðið lækkaði líka um 0,2% að nafnvirði í maí, en um rösklega 1,5% að raunvirði, vegna verðbólgunnar. Búist er við að veltan hægi enn á sér eftir að Íbúðalánasjóður hækkaði vexti sína upp fyrir vexti bankanna af húsnæðislánum og lækkaði hámarkslánin. Framan af ári spáðu sumar greiningardeildirnar nokkurra prósenta hækkun í ár og svartsýnustu spárnar gerðu ráð fyrir að verði stæði í stað, en lækkaði ekki, sem nú er þó orðin raunin.

Mikill fjöldi nýrra íbúða mun koma á markað á höfuðborgarsvæðinu á næstu mánuðum, og samkvæmt heimildum Fréttastofunnar eru bankarnir að draga stórlega úr framkvæmdalánum vegna bygginga, sem nú þegar er byrjað á, og nánast alveg hættir að heita fjármagni til fyrirhugaðra framkvæmda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×