Innlent

Vilja endurráðningu án skilyrða

Landspítali - háskólasjúkrahús
Landspítali - háskólasjúkrahús MYND/Vísir

Læknafélag Íslands býður Landspítalanum - háskólasjúkrahúsi, að leggja sitt að mörkum við að semja um starfsskyldur tveggja lækna sem sagt hefur verið upp störfum, ef spítalinn endurræður þá án skilyrða.

Læknafélag Íslands sendi framkvæmdastjórn Landspítla - háskólasjúkrahúss bréf í dag vegna yfirlæknanna Tómasar Zoëga og Stefáns E. Matthíassonar. Dæmt hefur verið í brottrekstrarmálum þeirra beggja, annars vegar í Hæstarétti í máli Tómasar og Héraðsdómi í máli Stefáns.

Í bréfinu skorar Læknafélagið á stjórnarnefnd spítalans að beita sér fyrir því að hlutur læknanna tveggja verði réttur, þannig að þeir geti gengið inn í fyrri störf sín án skilyrða. Aðeins á þann hátt sé unnt að gera þá jafnsetta og áður en hinar ólögmætu ákvarðanir voru teknar, segir í bréfi Læknafélagsins. Sé það þá ennþá vilji yfirstjórnenda spítalans að ná fram breytingum á störfum og starfsskyldum læknanna sé félagið reiðubúið að leggja sitt af mörkum vegna slíkra samninga og aðstoða við vandasama túlkun starfsmannaréttarins.

Í bréfinu segir að Læknafélagið leggi mikla áherslu að hlutur læknanna tveggja verði réttur með viðunandi hætti. Ekki eingöngu vegna hagsmuna læknanna tveggja, heldur ekki síður vegna samskipta lækna og yfirstjórnenda spítalans almennt. Þar hafi myndast vík milli vina. Núverandi stjórnunarhættir hafa leitt til þess að sumir læknar telji ekki þjóna tilgangi að láta reyna á réttarstöðu sína telji þeir á sér brotið. Jafnvel þótt mál vinnist fyrir dómstólum þá sé ólögmætinu viðhaldið. Fyrir marga lækna sé Landsspítalinn - háskólasjúkrahús eini mögulegi vinnustaðurinn á Íslandi og því sé ekki til vinnandi að fá jákvæða dómsniðurstöðu með þeirri afleiðingu að eiga þess ekki lengur kost að starfa við spítalann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×