Innlent

Ljóst í febrúar að vellinum yrði lokað

Bandaríkjastjórn ætlar ekki að verja neinu fé til herstöðvarinnar í Keflavík frá 1. október á þessu ári. Samkvæmt heimildum NFS var þetta vitað strax í byrjun febrúar - og var ástæðan fyrir fundi samninganefnda Íslands og Bandaríkjanna í þeim mánuði.

Bush Bandaríkjaforseti lagði fjárlagafrumvarp sitt vegna hersins fyrir 2007 fyrir bandaríska þingið þann 6. febrúar. En fjárlagaár hersins er frá 1. október - og í tillögum forsetans er ekki einn dollari fyrir varnarstöðina í Keflavík. Það þýðir einfaldlega að ef setja á eitthvert fé til starfseminnar í Keflavík frá 1. október, þá þarf annað hvort að taka það fé úr öðrum verkefnum eða fá fjáraukalög samþykkt á Bandaríkjaþingi.

Talsmaður Bandaríkjahers segir í samtali við NFS að afar ólíklegt sé að stjórnin leggi nú til breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Í þætti Jóns Ársæls, Sjálfstæðu fólki, á Stöð tvö kom fram í máli Geirs Haarde að símtalið fræga frá aðstoðarutanríkisráðherra á miðvikudag í síðustu viku hefði ekki komið sér á óvart. Össur Skarphéðinsson henti þetta á lofti og gagnrýndi á Alþingi í dag það sem hann kallaði pukur. Halldór Ásgrímsson hafnaði því.

En NFS hefur heimildir fyrir því að fundur Geirs Haarde utanríkisráðherra með Condoleezu Rice annan febrúar - og fundir samninganefnda landanna í kjölfarið - hafi verið haldnir vegna þeirrar staðreyndar, sem þá lá fyrir, að Bandaríkjaforseti myndi ekki leggja til að fé yrði lagt í herstöðina í Keflavík eftir 1. október. Bandaríkjamenn vildu gera úrslitatilraun til að fá fram hvað Íslendingar væru reiðubúnir að leggja í púkkið til að halda stöðinni í gangi.

Tilboðið var ekki nógu gott og því fór sem fór. En nokkrum dögum síðar, þegar fjárlagafrumvarpið kom fram, hefði íslenskum stjórnvöldum átt að vera ljóst þau þau höfðu þá þegar tapað baráttunni og vellinum yrði lokað fyrir 1. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×