Nú er útlit fyrir að enn frekari tafir verði á byggingu nýja Wembley-leikvangsins í London, eftir að allir verkamenn á svæðinu voru sendir heim í dag. Ástæðan er sú að verkamenn á svæðinu heyrðu háværan hvell þegar þeir voru við störf og er óttast að hluti af þaki byggingarinnar hafi pompað niður um næstum einn metra.
Atvikið er nú í rannsókn, en það verður eflaust ekki til að auka á trúverðugleika áströlsku verktakanna sem þegar hafa frestað opnun mannvirkisins lengur en til stóð og þarf úrslitaleikurinn í enska bikarnum sem kunnugt er að fara fram í Cardiff vegna þessa.