Innlent

Nýr varnarsamningur kynntur á þriðjudag

Búist er við að nýr varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna verði kynntur í Þjóðmenningarhúsinu á þriðjudag.

Forsætisráðherra skýrði frá því eftir ríkisstjórnarfund síðastliðinn þriðjudag að meginlínur nýs varnarsamnings lægju þegar fyrir og vonaðist hann til að niðurstaðan yrði kynnt fyrir þessa helgi, en annars eftir helgina. Nú virðist ljóst að næsti þriðjudagur verði dagur hinna stóru tíðinda. Utanríkismálanefnd Alþingis hefur þá verið boðuð til fundar þann dag klukkan 14.30 og vekur athygli að fundarstaðurinn er Þjóðmenningarhúsið. Það bendir til þess að ætlunin sé að þetta verði einskonar viðhafnarfundur en fundarefnið er Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna og er gert ráð fyrir að gestir mæti á fundinn. Áður má ætla að forsætisráðherra kynni forystumönnum stjórnarandstöðunnar niðurstöðuna, eins og hann hafði áður boðað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×