Innlent

Íslensk verkalýðsfélög hyggja á útrás

MYND/Valgarður

Íslenska verkalýðsfélög hyggja á útrás í kjölfar íslenskra fyrirtækja þar sem styðja á við uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar Eystrasaltsríkjunum. Verkalýðsforkólfar vonast til þess að íslensk fyrirtæki sem starfa í löndunum taki þátt í verkefninu með þeim.

Rafiðnaðarsamband Íslands, Samiðn og Starfsgreinasamband Íslands kynntu í morgun samkomulag sem félögin hafa gert með sér um að miðla af reynslu sinni og styðja við verkalýðshreyfingu í Eystrasaltsríkjunum. Þetta gera þau í samvinnu við önnur félög innan norrænu verkalýðshreyfingarinnar en markmiðið er að lyfta upp lífskjörunum í þessum löndum.

Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samniðar, segir mikilvægt að koma jafnvægi á þennan sameiginlega markað sem Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin sé. Ef ójafnvægi sé á markaðnum leiti þeir sem lakari kjörin hafi þangað sem ástandið sé betra og þrýsti þannig niður kjörum.

Meðal þess sem íslensku verkalýðsfélögin gera eru að heimsækja og halda fundi með bæði forráðamönnum og starfsmönnum þeirra íslensku fyrirtækja sem hafa haslað sér völl í Eystrasaltslöndunum, kynna starfsmönnunum grundvallaratriði kjarasamninga og vinnuumhverfismála á Norðurlöndum ásamt því að beita sér fyrir því að gerðir verði kjarasamningar við starfsmenn viðkomandi fyrirtækja. Þá er von manna að byggð verði upp sterk verkalýðshreyfing.

Þorbjörn telur mikilvægt að íslensku fyrirtækin hugsi sér að vera áfram í löndunum og taki þátt í uppbyggingu í þeim en fari ekki strax og launin hækki. Aðspurður segist hann eiga von á því að norræn fyrirtæki taki vel í málaleitan verkalýðshreyfingarinnar því það skipti þau máli að hafa traustan vinnumarkað og vel menntað fólk en að þau sækist ekki bara eftir því að vera þar sem launin eru lægst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×