Innlent

Myndum þurfa að veiða margfalt fleiri dýr

Hvalskurður í Hvalfirði.
Hvalskurður í Hvalfirði. MYND/Kristján Ari Einarsson

Íslendingar myndu þurfa að veiða margfalt fleiri hrefnur en nú er gert til að draga úr stofnstærð hrefnunnar og hemja ágang hennar í fiskinn á Íslandsmiðum eins og sjávarútvegsráðherra leggur til. Einar K. Guðfinnsson segir að við myndum þurfa að veiða um 200 hrefnur á ári til að draga úr fjölgun hrefnunnar og enn fleiri ef ætlunin er að minnka stofninn.

Bráðabirgðaniðurstöður úr vísindaveiðum Íslendinga á hrefnum gefa til kynna að um sjö til fimmtán prósent af fæðu hrefnunnar sé þorskur, og að allt að þriðjungur sé fiskmeti af einhverri sort. Sjávarútvegsráðherra segir þetta sterk rök fyrir hrefnuveiðum í atvinnuskyni.

Vísindaveiðaáætlun Íslendinga byggist á 200 veiddum hrefnum og sú áætlun er hálfnuð núna. Einar reiknar með að hægt verði að ljúka áætluninni á næstu tveimur árum, sem þýðir að veiðiheimildir verði líklega auknar fyrir komandi sumarvertíð.

Nú eru um 44.000 hrefnur á landgrunninu við Ísland samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnun. Síðastliðin þrjú sumur hafa verið veiddar allt að 39 hrefnum á ári. Þetta er minna en 0,1% af hrefnustofninum. Ef veiða ætti eitt prósent af stofninum væri kvótinn kominn yfir 400 dýr á ári.

Íslenski kjötmarkaðurinn annar þeim tæplega fjörutíu hrefnum sem við veiðum á ári eins og er en ef veiðin fer mikið umfram það þurfum við að fara að flytja út. Að sögn Félags hrefnuveiðimanna er mikill markaður fyrir hrefnukjöt í Japan, það væri markaður sem yrði kannaður áður en Íslendingar ákvæðu að hefja veiðar í atvinnuskyni. Einar sagði ljóst að ekki yrði farið út í veiðar í atvinnuskyni ef ekki væri markaður fyrir kjötið.

Einar segist ekki hafa áhyggjur af áhrifum hrefnuveiða í atvinnuskyni á ímynd Íslands út á við. Hann segist ekki vita til þess að vísindaveiðarnar hafi haft mikil áhrif á ímynd Íslands út á við hingað til og að þær hafi ekki dregið úr ferðamannastraumi. Hann segir þrýsting á Íslendinga að hætta við hvalveiðarnar hafi verið mun minni en búist hefði verið við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×