Innlent

Mikil mengun vegna sinubruna

Rykmengunin af sinubrunanum á Mýrum er jafnvel hundraðföld árleg rykmengun frá tvöhundruðþúsund tonna álveri. Magn ýmissa gróðurhúsalofttegunda, sem fór út í loftið meðan á brunanum stóð, getur slagað hátt í helming árlegrar losunar slíkra efna frá álveri. Talið er að um 67 ferkílómetrar lands hafi brunnið á Mýrum. Þór Tómasson efnaverkfræðingur segir þarna mikið brenna af kolefnismassa, eins og gerist við venjulegan arinbruna, og miðað við að svæðið sem brann hafi verið frá þunnu og upp í þykkt graslendi hafi kolefnismassi og gróðurhúsalofttegundir á bilini 10-40% af því sem kemur frá 200.000 tonna álveri á heilu ári. Brennisteinsdíoxíð væri um 1-2% af því sem kæmi á ári frá álveri og enn meira af köfnunaroxíði og kolmónoxíði. Það sé hins vegar alveg öruggt að ryk, það er sótagnir, aska, sandur, óbrunnin strá, lauf og fleira verið mun meira. Hafi slíkt magn verið brennt í viðarkubbum í arni, kæmi af því sambærilegt ryk og af álveri á heilu ári. Miðað við þær aðstæður sem þarna hafi verið, megi ætla að rykmengunin sé allt að því hundraðföld sú mengun sem kemur á heilu ári frá 200 þúsund tonna álveri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×