Innlent

Hlutfall vinnuslysa á Austurlandi eykst umtalsvert

Frá Kárahnjúkum.
Frá Kárahnjúkum. MYND/GVA

Um þriðjungur vinnuslysa hér á landi hefur verið á Austurlandi undanfarin tvö ár samkvæmt tölum Vinnueftirlitsins. Hefur hlutfall þeirra af öllum vinnuslysum í landinu aukist umtalsvert frá aldamótum. Þá leiða tölur Vinnueftirlitsins í ljós að byggingariðnaðurinn er hættulegasta starfsgreinin.

Vinnueftirlitð heldur utan um tölur um vinnuslys hér á landi og birtir meðal annars í ársskýrslum sínum. Þar er þó aðeins um að ræða tilkynnt vinnuslys sem leiða til þess að starfsmaður er fjarri vinnu í að minnsta kosti einn dag eða eru svo alvarleg að varanlegt heilsutjón hlýst af. Þegar rýnt er í slysatölur kemur í ljós að fjöldi slasaðra í vinnuslysum er nokkuð svipaður síðustu ár, á bilinu 1200 til 1400 manns en árið 2004 sker sig úr þar sem hátt í 1800 slösuðust í vinnuslysum.

Þá leiða tölur Vinnueftirlitsins í ljós að hlutfall slysa á Austurlandi af öllum vinnuslysum á landinu hefur aukist töluvert síðastliðin tvö ár frá árunum. Árið 2000 voru um fimm prósent vinnuslysa á landinu á Austurlandi en í fyrra og hitteðfyrra er hlutfallið um þrjátíu prósent. Þessa aukningu má væntanlega rekja til stóriðjuframkvæmdanna fyrir austan.

Þegar horft er til þess hvaða starfsgreinar eru hættulegastar kemur í ljós að það er byggingariðnaðurinn sem trónir þar á toppnum enda fjölmenn grein þar sem unnið er við erfiðar aðstæður. Ríflega tvö þúsund vinnuslys í þeim geira voru tilkynnt til Vinnueftirlitsins sem er töluvert meira en í málmiðnaði og fiskiðnaði sem koma þar á eftir.

Tölur um banaslys síðustu 20 ár sýna að flest hafa orðið í bygginariðnaði, eða 12, og þar á eftir koma málmiðnaður og fiskiðnaður með átta banaslys frá 1985. Banaslysum hefur hins vegar ekki fjölgað á síðustu tveimur árum samfara auknum framkvæmdum eins og búast mætti við því þau voru tvö árið 2004 og þrjú í fyrra sem er svipað og árin á undan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×