Innlent

Varar Íslendinga við erfðatækninni

MYND/E.Ól.

Hættan sem mönnum getur stafað af erfðabreyttum matvælum og lyfjum hefur ekki verið útilokuð. Þetta segir fyrrverandi umhverfisráðherra Breta sem staddur er hér á landi. Hann varar Íslendinga við því að taka upp slíka tækni í landbúnaði og lyfjaframleiðslu.

Erfðatækni er notuð til að framleiða lífverur sem náttúran sjálf gæti aldrei búið til og felst í flutningi erfðaefnis, eða DNA, á milli lífvera. Afurðirnar eru svo meðal annars notaðar í lyfja- og matvælaframleiðslu. Michael Meacher, sem er þingmaður á breska þinginu og gegndi stöðu umhverfisráðherra í bresku ríkisstjórninni á árunum 1997-2003, beitti sér mjög fyrir opinberri umræðu um kosti og galla erfðabreyttra matvæla í ráðherratíð sinni. Hann hélt í gær fyrirlestur um efnið á fundi í Norrænu húsinu en hann varar eindregið við þessari tækni.

„Vandamálið við erfðatækni er í fyrsta lagi hættan sem umhverfinu stafar af henni," segir Meacher. „Ísland státar af hreinni og ómetanlegri náttúru sem ég tel mikil hætta á að spillist ef erfðatækni verður tekin upp í miklum mæli í íslenskum landbúnaði. Í öðru lagi er um að ræða hættuna sem mönnum stafar af henni. Engar marktækar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum erfðabreyttra matvæla á fólk og því er áhættan mjög mikil. Það hafa einungis verið gerðar athuganir á dýrum og miðað við niðurstöðu flestra þeirra er ástæða til að hafa áhyggjur."

Og Meacher segir að gróðahugsjón leynist þarna á bak við. „Eina ástæða þess að málstað erfðatækninnar er haldið á lofti er sú að stóru matvæla- og líftæknifyrirtækin græða fúlgur fjár á henni," segir þingmaðurinn.

Rætt verður við Meacher á Fréttavaktinni eftir hádegi í dag á NFS.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×