Innlent

Fyrirtæki verða að taka samfélagslega ábyrgð

Fyrirtæki verða að taka samfélagslega ábyrgð sagði Ingibjörg R. Guðmundsdóttir varaformaður Alþýðusambands Íslands, í 1. maí ræðu sinni á Ingólfstorgi í dag. Ekki sé nóg að hugsa bara um hagnað og hlutabréfaverð. Atvinnurekendur geta ekki skýlt sér á baka við fáfræði og þóst ekkert vita, þegar erlent verkafólk er hlunnfarið í gegnum starfsmannaleigur og þjónustuviðskipti, sagði Ingibjörg R. Guðmundsdóttir varaformaður ASÍ.

"Ég skil ekki hvernig fólki tekst að sannfæra sig um að því komi ekkert við hvaða kjara starfsfólk, sem vinnur hjá því nýtur. Ég skil ekki heldur hvernig það sefur á næturnar. Ætli það sé tilbúið til að mæta þeim óhjákvæmilegu breytingum, sem almenn lækkun launa myndi hafa á samfélagið. Það verður ekki til mikil velta af lágmarkslaunum."

Okkur ber að gæta bræðra okkar og systra, sagði hún jafnframt, hverrar þjóðar sem þau eru. En ekki nóg með það, íslensk fyrirtæki verða að vanda framkomu sína gagnvart öllum. Líka innlendu starfsfólki sínu. Afkoma starfsfólksins sé meira verð en hækkun hlutabréfa.

"Við verðum að axla ábyrgð og ákveða hvernig samfélag við viljum. Það er enginn í minnsta vafa um að við berum öll siðferðilega ábyrgð sem einstaklingar og það sama á að sjálfsögðu við um fyrirtækin.



Fljótum ekki stefnulaust eins og korktappar, spriklandi hamingjusöm yfir því hvað við séum klár og allt blómstri, á meðan það fjarar undan sáttinni í samfélaginu.



Við verðum að setja markið hátt og ætlast til mikils af sjálfum okkur. Verjum og styrkjum velferðarlandið Ísland. Land þjóðarsáttar og vinasamfélags, gestrisni og mannkærleika. Verjum Ísland allra"

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×