Erlent

Tilræðismaður við páfa fær frelsi

Tyrkinn sem reyndi að myrða Jóhannes Pál páfa annan fyrir aldarfjórðungi var í dag látinn laus úr fangelsi. Tyrkneskir þjóðernissinnar fögnuðu Ali Agca eins og þjóðhetju þegar hann kom út úr fangelsinu.

Hinn 48 ára gamli Agca, lét til skarar skríða gegn páfanum í maímánuði árið 1981. Atburðurinn átti sér stað á Péturstorgi. Páfinn veifaði fjölda fólks sem hafði safnast saman á Péturstorgi, úr opinni bifreið, þegar nokkrir skothvellir heyrðust úr mannþrönginni. Páfinn hneig strax niður og við nánari athugun kom í ljós að hann hafði orðið fyrir þrem skotum. Í maga og báða handleggi.

Helstu líffæri sluppu og páfinn náði aftur fullri heilsu. Eins og frægt er orðið heimsótti páfinn svo árásarmanninn í fangelsi tveimur árum eftir atburðinn og fyrirgaf honum.

En fyrirgefning losar menn ekki úr fangelsi og Agca hefur mátt dúsa bak við fangelsismúra í tuttugu og fimm ár. Fyrst um sinn á Ítalíu, en þaðan var hann framseldur til Tyrklands fyrir tæpum fimm árum.

Tyrkneskir þjóðernissinnar fögnuðu ákaft fyrir utan fangelsið í morgun og ættingjarnir voru líka spenntir.

"Við erum mjög hamingjusöm," sagði Adnan Agca, bróðir Mehmets Alis. "Við erum þakklát ættjörð okkar og okkar almáttuga guði."

En adam verður líklegast ekki lengi í paradís. Tyrkneski herinn ætlar að skikka Agca strax í herþjónustu, þar sem öllum fullorðnum mönnum í Tyrklandi er gert að vera í hernum í minnst fimmtán mánuði. Vegna þessa gekkst hann undir læknisskoðun á hersjúkrahúsi í dag og þar fyrir utan höfðu um 250 manns safnast saman í mótmælaskyni.

Þeim verður kannski að ósk sinni, því dómsmálaráðherra Tyrklands sagði í dag að ríkisstjórnin myndi fara yfir málið á næstu dögum og ekki væri loku fyrir það skotið að Agca yrði aftur settur á bak við lás og slá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×