Innlent

Herör skorin upp gegn ölvunarakstri

Aukið fjármagn og nýjasta tækni verða notuð til að góma ökumenn sem aka undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.  Vel menntað og vel launað fólk er líklegra en annað til að aka eftir að hafa fengið sér einn áfengan drykk, en þeir sem minni menntun hafa og lægri laun eru líklegri til að aka eftir fleiri en einn.

 

Samgönguráðherra, ríkislögreglustjórinn, vegamálastjóri og forstjóri Umferðarstofu skrifuðu undir samning í dag um aukið umferðareftirlit. Alls verður einum og hálfum milljarði króna varið til verkefnisins á fjórum árum, en sérstakt átak lögreglu á síðasta ári gaf góða raun samkvæmt könnun og nú á að gera enn betur. Ríkislögreglustjórinn fékk í dag í hendur tvö fullkomin tæki til að mæla áfengismagn í ökumönnum, en fjögur til viðbótar bætast við síðar á árinu. Á þessu ári verður 87 milljónum króna varið í aukið umferðaröryggi. Þar verður áherslan lögð á að fylgjast með bílbeltanotkun, hraðakstri og ölvunarakstri. Samkvæmt Gallup könnun eru þeir sem eru með meiri menntun og hærri laun líklegri til að aka eftir að hafa fengið sér einn áfengan drykk, en þeir sem búa að minni menntun og lægri launum. Þeir sem voru með skemmri skólagöngu og lægri laun voru aftur á móti líklegri til að aka eftir að hafa fengið sér meira en einn áfengan drykk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×