Lífið

Stafsetningarorðabókin rauk á toppinn

Egill Örn Jóhannsson lét prenta ársskammt af Stafsetningarorðabókinni en sú prentun er að verða þrotin.
Egill Örn Jóhannsson lét prenta ársskammt af Stafsetningarorðabókinni en sú prentun er að verða þrotin.

Réttritun er Íslendingum greinilega enn mikið hjartans mál en nýútkomin Stafsetningarorðabók rauk beint í efsta sæti heildarlista mest seldu bóka síðustu viku og hafði nokkra yfirburði á toppnum.

"Fyrsta prentun er nánast á þrotum og þær eru fáar útgáfubækur okkar sem hafa selst jafn hratt á fyrstu dögunum og Stafsetningarorðabókin," segir Egill Örn Jóhannsson, útgáfustjóri JPV útgáfu. "Við stækkuðum samt fyrsta upplagið og gerðum ráð fyrir að þessi fyrsta prentun myndi endast okkur í að minnsta kosti ár en hún kláraðist á tíu dögum."

Egill segir að þeim hjá JPV hafi verið ljóst að þörfin fyrir bók af þessu tagi væri mikil en þessar góðu viðtökur hafi komið þeim í opna skjöldu. "Gagnið sem má hafa af bókinni er samt svo margþætt að hún höfðar til miklu fleiri en bara námsfólks þar sem allir sem fást við og nota íslenskt mál hafa not fyrir hana."

Stafsetningarorðabókin er mikið verk, rúmlega 700 síður og inniheldur um 65.000 uppflettiorð. "Íslensk málnefnd hefur unnið að þessu verki árum saman og bókin er hin opinbera réttritunarorðabók íslenskrar tungu."

Önnur prentun Stafsetningarorðabókarinnar er væntanleg um mánaðamótin en þá verður ársskammturinn sem búið var að prenta væntanlega uppurinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.