Innlent

Hápunktur Hinsegin daga

Ekkert klámfengið eða hneyslanlegt verður að finna í Gleðigöngu samkynhneigðra á morgun. Skipuleggjendur hátíðarinnar leggja áherslu á að um fjölskylduhátíð sé að ræða og búast við að þúsundir leggi leið sína í miðbæ Reykjavíkur á morgun.

Gangan er nú haldin í áttunda sinn og hefur vaxið mikið með árunum. Fyrst þegar hún var haldin gengu tuttugu og sjö manns en talið er að í fyrra hafi um fimmtíu þúsund manns tekið þátt í hátíðahöldunum. Í ár fagna samkynhneigðir auknum réttindum sínum. Samkynhneigðir geta nú skáð sambúð sína í þjóðskrá, hafa rétt til frumættleiðingar og lesbíur í staðfestri samvist eða sambúð geta farið í tæknifrjóvgun.

Gangan byrjar klukkan tvö á morgun sem er klukkutíma fyrr en venjulega og segja skipuleggjendur það sértaklega gert með fjölskyldufólk í huga. Börn samkynhneigðra verða með sérstakan vagn í göngunni á morgun.

Meðal þeirra sem vinna að undirbúningi er eftirvæntingin eftir göngunni mikil en fjöldi fólks hefur unnið baki brotnu undanfarið við að undirbúa gönguna og vagna sína.

NFS sendir beint út frá göngunni á morgun klukkan tvö. Bein útsending verður einnig frá Hinsegin guðþjónustu í Hallgrímskirkju á sunnudag klukkan fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×