Innlent

Leit hætt að kajakræðara

Hátt í fjörutíu manns leituðu í allan dag að erlendri konu á kajak í Seyðisfirði og fjörðunum þar í kring. Boð komu frá henni í morgun á neyðarrás fyrir skip og mátti skilja þau sem neyðarboð. Ísraelsk kona fannst á kajak í Norðfirði fyrr í dag en hún segir boðin ekki hafa komið frá sér.

Neyðarboðin bárust rétt upp úr klukkan ellefu í morgun og var leit skipulögð þegar í stað. Björgunarsveitir frá Norðfirði og að Vopnafirði leituðu við strandlengjuna frá Mjóafirði að Borgarfirði eystra en leitin hefur engan árangur borið. Boð frá kajaknum komu í gegnum sendi sem staðsettur er á Gagnheiði suðvestan við Seyðisfjörð og sagði kajakræðarinn,sem var kona, að hann væri staddur í mikilli þoku og engu skyggni út af Seyðisfirði. Vitað var um ísraelska konu sem var á leiðinni til Neskaupsstaðar á sama tíma og hafa björgunarsveitarmenn fundið hana. Hún var búin talsstöð á þeirri rás sem kallað var á. Hún neitar því alfarið að boðin hafi verið frá henni komin líkt og líklegast var talið. Leit var hætt rétt fyrir klukkan sex í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×