Innlent

Mikil ölvun á útihátíðum

Mikil ölvun var á útihátíðum víðs vegar um land í nótt. Á Ólafsvík myndaðist biðröð við heilsugæslu bæjarins vegna pústra manna á milli.

Um fimmþúsund manns sóttu hátíðina færeyska dag á Ólafsvík heim um helgina. Að sögn lögreglu var mikið um skemmdaverk og innbrot í húsnæði og bifreiðar. Þá var mikið um stimpingar manna á milli og í það minnsta fimm voru barðir í hausinn með flösku. Ástandið var um tíma svo slæmt að biðröð myndaðist við heilsugæslu bæjarins. Þá voru fimm teknir fyrir ölvunarakstur og tvö fíknefnamál komu upp. Mest er um unglinga á svæðinu að sögn lögreglu sem heldur uppi mikilli gæslu en sextán lögreglumenn eru á vakt í stað tveggja sem er vaninn.

Um 3 til 4 þúsund manns heimsóttu humarhátíðina á Hornafirði. Þar var einnig mikil ölvun og erill mikill hjá lögreglu og heilsugæslu staðarins vegna slagsmála. Þá var einn tekinn með fíkniefni . Í Þórsmörk dvöldu á þriðja hundrað manns um helgina og rúmlega 300 háskólanemar eru saman komnir í Landeyjum og að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli hefur gæsla á svæðinu verið mjög mikil.

Sömu sögu er að segja um landsmót hestamanna á Vindheimamelum þar sem rúmlega 10 þúsund manns skemmtu sér vel fram eftir nóttu. Papar léku á stórdansleik í gærkvöldi og að sögn fjölmiðlafulltrúa mótsins ætlaði allt um koll að keyra þegar þeir stigu á stokk. Dansleikurinn fór að sögn lögreglu vel fram en þegar líða tók á nóttina var nokkuð mikill erill hjá lögreglu vegna ölvunnar og minniháttar fíkniefnamála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×