Innlent

Viðræður um varnarsamstarf hófust í morgun

MYND/E.Ól

Viðræður Bandaríkjamanna og Íslendinga um framtíð varnarsamstarfs ríkjanna hófust í utanríkisráðuneytinu í morgun. Bandaríkjamenn sendu tuttugu og sex manna sendinefnd á fundinn undir forystu sendiherra þeirra á Íslandi. Fyrirfram er ekki búist við að niðurstaða fáist á fundinum. Borðum skrýddir samningamenn Bandaríkjanna, alls 26 manns, streymdu inn í utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg klukkan hálf tíu í morgun.

Að baki var óformlegur fundur í bandaríska sendiráðinu í gær. Bandaríski sendiherrann á Íslandi, Carol van Voorst leiðir viðræðurnar. Mesta athygli vekur þó hver er fjarstaddur, en Nicholas Burns aðstoðarutanríkisráðherra lét ekki sjá sig. Hann fór fyrir samninganefnd Bandaríkjanna í Washington í byrjun febrúar og það var hann sem hringdi í Geir Haarde utanríkisráðherra og tilkynnti að heraflinn á Miðnesheiði yrði kallaður heim fyrir haustið. Burns segir í grein í Morgunblaðinu í morgun að það sé enn sameiginlegt markmið Bandaríkjanna og Íslands að tryggja varnir og öryggi landanna beggja. Nýjar hættur krefjist nýrra ráðstafana: "Öryggis við hafnir og gámaflutninga, traustrar landamæravörslu, samvinnu á sviði löggæslu og á öðrum sviðum þar sem við vinnum nú þegar saman á uppbyggjandi hátt." Hvort bandarísku samningamennirnir hafa eitthvert kjöt á það bein ætti að koma í ljós í viðræðunum í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×