Erlent

Kjarnorkuáætlun Írana af stað á ný

El Baradei, yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar.
El Baradei, yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar. MYND/AFP

Kjarnorkuáætlun Írana er komin af stað á nýjan leik, Bandaríkjamönnum og Evrópusambandinu til mikillar gremju. Vesturlönd óttast að Íranar ætli að þróa kjarnavopn en þeir sverja og sárt við leggja að vinnslan sé í friðsamlegum tilgangi.

Rúm tvö ár eru síðan starfsmenn Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar innsigluðu rannsóknarstöðina í Natanz í Íran en í morgun ákváðu Íranar að rjúfa þau til að geta hafið rannsóknir á nýjan leik.

Íranar leggja áherslu á að þeir ætli að svo stöddu einungis að stunda rannsóknir í stöðinni, ekki að auðga úran. Það mega þeir raunar gera samkvæmt sáttmála um útbreiðslu kjarnorkuvopna en einungis í friðsamlegum tilgangi. Ríkisstjórnir á Vesturlöndum eiga hins vegar bágt með að trúa að hin herskáu stjórnvöld sem sitja í Teheran hafi einungis rafmagnsframleiðslu í hyggju og því hafa þær hótað refsiaðgerðum ef auðgun úran hefst í Íran.

Frakkar, Þjóðverjar og Bretar hafa átt í viðræðum við Írana um kjarnorkumálin undanfarin misseri en í haust slitnaði upp úr þeim. Útspil Írana í dag verður tæpast til að draga úr spennunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×