Erlent

Framtíð NATO í húfi

MYND/AP

Aðgerðir Atlantshafsbandalagsins í hættulegustu héröðum Afganistans á næstunni gætu ráðið úrslitum um framtíð bandalagsins sem hernaðarafls. Stefnt er að því að NATO sjái um öryggisgæslu í þrem fjórðu hlutum landsins fyrir árslok. Starfsemi Íslendinga í landinu verður áfram þar sem ástandið er best.

Það sem fyrst var hugsað sem eins konar leið fyrir Evrópulönd til að styðja baráttu Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum, án þess að senda mannafla til Íraks, gæti ráðið úrslitum um hlutverk NATO í heiminum á næstu árum og áratugum. Hingað til hafa verkefni NATO í Afghanistan einskorðast við norður- og vesturhluta landsins, en Bandaríkin hafa nær alfarið séð um aðgerðir í suðri.

Þar eru helstu vígi uppreisnarmanna, og það virðist alveg sama hve margir eru felldir, nýir spretta upp jafnharðan eins og gorkúlur.

Nú standa fyrir dyrum víðtækar aðgerðir þar sem NATO munu að mestu sjá um, og ef þær heppnast vel verður fyrst hægt að skipuleggja brottfluttning erlendra hersveita frá Afghanistan.

Í síðustu viku samþykktu Hollendingar að senda fjórtán hundruð hermenn í viðbót til Afghanistan og á næstunni er búist við að fleiri þjóðir innan NATO fari að fordæmi þeirra. Á sama tíma og Bandaríkjamenn hyggjast senda um tvö þúsund hermenn heim frá Afghanistan, stendur til að fjölga hermönnum NATO um sex þúsund í allt á næstu mánuðunum. Þá fara aðgerðirnar í suður- Afghanistan á fullt skrið. Verkefnið er eitt stærsta hernaðarverkefni sem Atlantshafsbandalagið hefur ráðist í og er mikil prófraun. Það mun hafa mikið að segja um framtíð NATO sem hernaðarafls.

Íslendingar munu eins og aðrar þjóðir innan bandalagsins taka að sér viðameira hlutverk í Afghanistan, eins og flestar þjóðir innan NATO. Starfsemi Íslendinga verður þó eins og áður bundin við þau svæði þar sem ástandi er stöðugast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×