Erlent

Alvarlegri áhrif gróðurhúsalofttegunda

Aukin samþjöppun gróðurhúsalofttegunda getur haft alvarlegri áhrif en fyrr var talið að því er fram kemur í nýrri breskri skýrslu. Þar segir að litlar líkur séu á því að losun gróðurhúsalofttegunda verði haldið undir hættumörkum.

Skýrslan fjallar um hvernig forðast beri hættuleg áhrif loftslagsbreytinga og er unnin fyrir bresk stjórnvöld. Þar segir að hækki meðalhiti jarðar um meira en tvær gráður á Celsíus gæti það orsakað bráðnun Grænlandsjökuls, hrun vistkerfa, víðfeðma hungursneyð og vatnsskort og miklan félags- og efnahagslegan skaða, einkum í þróunarlöndum. Evrópusambandið hefur samþykkt áætlun sem miðar að því að koma í veg fyrir að meðalhitinn hækki um rúmar tvær gráður en talið er að það dugi jafnvel ekki til þar sem hækkun um tvær gráður gæti valdið bráðnun Grænlandsjökuls.

Í skýrslunni er safnað saman gögnum sem vísindamenn lögðu fram á ráðstefnu sem haldin var í Bretlandi í febrúar í fyrra. Þar kom fram að mikilvægt væri að skilgreina hvar mörkin væru varðandi losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið og meta hvernig ætti að koma í veg fyrir að að losun nái þeim.

Umhverfisráðherra Breta segir niðurstöður skýrslunnar væntanlega áfall fyrir marga. Það sem hljóti helst að vekja ugg sé að vísindamenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að þegar ákveðnum mörkum sé náð verði áhrifn óafturkræf. Rétt sé þó að taka fram að þróunin geti tekið þúsund ár.

Einn helsti ráðgjafi bresku stjórnarinnar í loftslagsmálum sagði í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC, að það yrði að leggja kalt mat á ástandið og sætta sig við það að ekkert ríki myndi loka fyrir orkuver sem útvegaði íbúum raforku til þess að takast á við þetta framtíðarvandamál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×