Innlent

Friðurinn úti

MYND/E.ÓI

Friðurinn hefur verið rofinn á vinnumarkaðnum með samþykkt Launanefndar sveitarfélaganna um hækkun lægstu launa, að mati Kristjáns Gunnarssonar, formanns Starfsgreinasambands Íslands. Hann hefur boðað formenn verkalýðsfélaganna á fund í næstu viku til að ræða tillögu launanefndarinnar.

Kristján Gunnarsson, formaður starfsgreinasambandsins, segir að á fundinum munu formenn verkalýðsfélaganna ræða þá stöðu sem upp er komin á vinnumarkaðnum og möguleikar á að hækka lægstu laun á hinum almenna vinnumarkaði kannaðir. Hann segir mikilvægt að sátt náist og með samþykkt launanefndarinnar hafi ákveðinn þrýstingur myndast.

"Það sem við ætlum að gera erað ráða ráðum okkar. Ég reikna með að á fundinum verði farið yfir þá stöðu sem komin er upp á vinnumarkaðnum eftir launanefndin tók þá ánægjulegu ákvörðun að hækka lægstu laun í tiltölulega nýgerðum kjarasamningum. Þetta myndar ákveðinn þrýsting annars staðar á vinnumarkaðnum, hjá almennu verkafólki sem hefur setið eftir algjörlega í launum."

Kristján á ekki von á að einhver átök verði á vinnumarkaðnum enda ríki svokölluð friðarskylda sem ekki er hægt að rjúfa.

"Það sem ég er að höfða til er að við þurfum að fá sátt um það við okkar viðsemjendur um það að hækka lægstu laun, það verður bara ekki við það unað að verkafólkið á almennum vinnumarkaði sitji eitt eftir á meðan þjóðfélagið iðar allt í launaskriði" sagði Kristján






Fleiri fréttir

Sjá meira


×