Innlent

Ofgnótt járns í heyi tengt riðu í sauðfé

MYND/Vilhelm Gunnarsson

Sterkar vísbendingar eru um að magn járns og annarra snefilefna í heyi geti haft áhrif á riðu í sauðfé. Þetta kemur fram í rannsókn íslenskra vísindamanna undir stjórn Þorkels Jóhannessonar.

Rannsóknarhópur á vegum embættis yfirdýralæknis hefur unnið að rannsóknum á heyi síðan 2001 og hefur borið saman magn járns, mangans, selens og annarra snefilefna í heyi frá bæjum þar sem riða hefur komið upp, þar sem hún hefur aldrei komið upp og bæjum þar sem skipt hefur verið um fé í kjölfar riðu.

Kristín Björk Guðmundsdóttir, dýralæknir, er ein þeirra sem unnið hefur að rannsókninni. Hún segir niðurstöðurnar sterka vísbendingu um tengsl milli snefilefna í heyi og riðu í fé. Á svæðum þar sem riða hefur verið tíð er mikið magn járns í jarðvegi og þar af leiðandi í heyi. Hins vegar einkennir hátt hlutfall mangans í heyi þau svæði þar sem riða hefur aldrei komið upp.

Járnmagn í íslenskum jarðvegi er mjög hátt víðast hvar, sérstaklega í mýrlendi. Sums staðar er það svo hátt að jaðrar við eitrunarmörk hjá plöntum. Kristín segir mjög mikilvægt að fylgja eftir þessum sterku vísbendingum um orsakir riðu. Sjúkdómurinn er einn sá algengasti í íslenskum húsdýrum og ákaflega kostnaðarsamur fyrir íslenskan landbúnað.

Hún segir of snemmt að slá neinu föstu um niðurstöðurnar en að miðað við fjártjón og óhagræði sem fylgir riðu, sé mikið unnið ef hægt er með einhverjum hætti að komast að orsökum hans, svo að jafnvel verði hægt að uppræta hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×