Innlent

Dæmdur í fimm ára fangelsi

Garðar braust meðal annars inn í Söluskála SJ á Fáskrúðsfirði og stal ýmsum varningi auk rúmlega 800 þúsund króna.
Garðar braust meðal annars inn í Söluskála SJ á Fáskrúðsfirði og stal ýmsum varningi auk rúmlega 800 þúsund króna.

41 árs gamall síbrotamaður, Garðar Garðarsson, var í gær dæmdur í fimm ára fangelsi. Garðar er dæmdur fyrir þjófnað, skjalafals, fjársvik, nytjastuld, brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni auk ýmissa umferðarlagabrota.

Meðal annars braust hann inn í félagi við annan mann í Söluskála SJ á Fáskrúðsfirði og stal ýmsum varningi auk rúmlega 800 þúsund króna í peningum, en bróðurparturinn var úr hraðbanka sem spenntur var upp.

Garðar á að baki langan sakaferil sem nær allt aftur til ársins 1982. Á næstu tíu árum var hann dæmdur fyrir fjórtán hegningarlagabrot. Síðan kom nokkurt rof í sakaferil hans fram til ársins 2000 þegar hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi. Hæstiréttur dæmdi hann í október sama ár í fjögurra ára fangelsi fyrir þjófnað. Á árinu 2001 hlaut hann dóma fyrir líkamsárásir, þjófnaði og umferðarlagabrot. Honum var veitt reynslulausn árið 2005. Hann rauf því skilorð með þeim afbrotum sem hann er dæmdur fyrir nú.

Garðar var auk fangelsisvistarinnar sviptur ökuréttindum ævilangt og gert að greiða Olís 421 þúsund krónur í skaðabætur. Þá gerði dómurinn upptæk á þriðja tug gramma af hinum ýmsu fíkniefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×