Innlent

Lítil ástæða til að óttast hringormasmit í sushi

Mynd/Vísir

Hringormasmit er eitthvað sem líklega enginn vill greinast með en þeir geta leitað í mannslíkamann eftir neyslu á hráum og hálfhráum fiski. Sushineytendur ættu þó ekki að þurfa að óttast þrátt fyrir að hrár fiskur sé megin uppistaðan í þessu japanska góðgæti.

Vinsældir sushi hafa aukist mjög mikið hér á landi á síðari árum. Fréttir af hringormasmiti í fólki eftir neyslu á hráum og hálf hráum fiski hefur eflaust skapað óhug meðal margra enda ekki girnileg tilhugsun um að finna hringorm í munni sér eftir að hafa borðað fisk. Guðmundur Freyr Ævarsson, yfirkokkur á Ó Sushi, segir ástæðulaust fyrir fólk að óttast sushi en sushigerðarmenn noti eingöngu fyrsta flokks hráefni sem er laust við alla orma. Hann segir einkum lax, túnfiskur og lúða verða notuð í sushi sem og skelfiskur sem sé nær alltaf soðinn áður en hann er framreiddur. Hann undirstrikar þó mikilvægi þess að meðhöndla allt hráefni rétt, hvort sem um fisk ræðir eða aðra fæðu.

Karl Skírnisson, dýrafræðingur hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, birti nýverið grein um hringormasmit hér á landi sem birtist í 1. tölublaði Læknablaðsins. Hann segir að hringormar geti fundist í flestum tegundum fiskjar en hringormar séu algengari í sumum tegundum en öðrum, líkt og í steinbít, þorski, loðnu, síld og makríl. Hringormar finnast hins vegar sjaldan í ýsu þar sem ýsa lifir nær eingöngu á skeldýrum.

Karl segir auðvelt er matreiða fisk svo hringormar komist ekki lifandi ofan í menn. Hringormar drepast við hitun upp fyrir 70 gráður í eina mínútu og líka ef hann er geymdur í um 20 gráðu frosti í viku eða meira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×