Innlent

Baugsmál ekki ástæða skipulagsbreytinga

Dómsmálaráðherra segir frávísun þrjátíu og tveggja ákæruliða í Baugsmálinu ekki vera kveikjuna að tillögu um nýja skiptingu ákæruvaldsins. Og óánægju bæjarstjóra Kópavogs og Hafnarfjarðar um sameiginlegt lögregluumdæmi á höfuðborgarsvæðinu segir hann vera á misskilningi byggða.

Í Hádegisviðtalinu á NFS í dag sagði Björn Bjarnason að áform um breytingar á skipulagi ákæruvaldsins væru vegna hugmynda sem Bogi Nilssonar ríkissaksóknari hafi komið á framfæri fyrir allnokkru síðan. Áformin snúa að því að færa ákæruvald í efnahagsbrotamálum frá embætti ríkislögreglustjóra og við því taki saksóknarar sem starfa muni á milli ríkissaksóknara og lögreglustjórana. Lögreglustjórar og ríkislögreglustjóri munu áfram hafa ákæruvald í einfaldari málum eins og sumum umferðarlagabrotum. En hafði frávísun 32 liða ákærunnar í Baugsmálinu engin áhrif á þessa ákvörðun. Björn segist sjá það fyrir sér að efnahagsrannsóknardeild verði áfram starfsrækt hjá embætti ríkislögreglustjóra sem muni vinna í samvinnu við sakasóknara.

Björn segir hugmyndir um fækkun lögregluebættanna vera komna frá lögreglumönnum sem telji margir hverjir að stærð styrki embættin, sérstaklega varðandi rannsóknir. En hvað með gagnrýni bæjarstjóra Kópavogs og Hafnarfjarðar á sameiningu embættanna á höfuðborgarsvæðinu, þar sem meðal annars er talið að þjónusta við bæjarbúa muni minnka.

Björn sagði að bæjarstjórarnir ættu að líta til þess sem lögreglan vildi og minnti á að það stæði ekki til að fella embættin í Kópavogi og Hafnarfirði undir lögregluna í Reykjavík. Stofnað yrði nýtt embætti fyrir allt höfuðborgarsvæðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×