Innlent

Segir harðar aðgerðir við ólöglegum veiðum nauðsynlegar

Einar K. Guðfinnsson
lýsir yfir stuðningi við aðgerðum norsku strandgæslunnar.
Einar K. Guðfinnsson lýsir yfir stuðningi við aðgerðum norsku strandgæslunnar. MYND/RÓBERT



Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra hefur lýst yfir stuðningi við aðgerðum norsku strandgæslunnar að færa skipið "Joana" til hafnar í dag. Skipverjar þess voru á veiðum á alþjóðlegu hafsvæði norður af Noregi. Samkvæmt upplýsingum sjávarútvegsráðuneytisins er skipið "þjóðernislaust" það er að segja, siglir hvorki undir fána nokkurs ríkis né eru á því merkingar um heimahöfn eða skráningarnúmer.

Íslensk stjórnvöld hafa átt samstarf við ýmsar þjóðir, þar á meðal Norðmenn, sem ætlað er að efla aðgerðir gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum.

Í fréttatilkynningu frá Sjávarútvegsráðuneytinu kemur fram að Einar K. Guðfinnsson segist hafa fullan skilning á aðgerðum sem þessum. Nauðsynlegt sé að grípa til harðra aðgerða ef takast eigi að stjórna skipum sem sigla án fána og hindra veiðar þeirra.

Fiskveiðinefnd Norðaustur- Atlantshafs samþykkti nýlega að skip sem staðin hafa verið að ólöglegum veiðum, fái ekki að leggjast að höfn í aðildarríkjum nefndarinnar en henni tilheyra Evrópusambandsríkin, Rússland, Noregur, Ísland, Grænland og Færeyjar.

Fyrr í þessum mánuði ákváðu sjávarútvegsráðherrar aðildarríkja Fiskveiðinefndarinnar einnig að útbúa samræmdan lista yfir óskráð skip en með þeim aðgerðum gætu þau fengið á sig hafnbann allt frá Grænlandi, Íslandi, Kanada og Noregi til Namibíu, Suður Afríku og Argentínu í suðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×