Innlent

Dómarar ósáttir við afskipti framkvæmdavaldsins

Dómsalur
MYND/Haraldur Jónasson

Hjördís Hákonardóttir formaður Dómarafélagsins segir grundvallaratriði að framkvæmda- og löggjafarvaldið breyti ekki ákvörðunum sem þegar hafi verið teknar af nefnd sem sett hafi verið á fót lögum samkvæmt til að ákvarða laun embættismanna. Dómarafélagið telur afskipti annarra en Kjaradóms aðför að sjálfstæði dómsvaldsins.

Dómarafélagið telur afskipti annarra en Kjaradóms aðför að sjálfstæði dómsvaldsins.

Í erindi Dómarafélagsins segir meðal annars: „Að baki þessu býr það sjónarmið að ekki er æskilegt að framkvæmdavaldið fjalli um eða ákveði laun dómara. Dómarar njóta sérstöðu sem einn af þremur handhöfum ríkisvalds og er sjálfstæði þeirra og staða tryggð með ákvæðum stjórnarskrár."

Í dag fjallaði Alþingi um frumvarp ríkisstjórnarinnar um Kjaradóm og kjaranefnd, en í frumvarpinu er lagt til að ákvörðun Kjaradóms um hækkun launa embættismanna og þjóðkjörinna fulltrúa um u.þ.b. 8% verði hnekkt, og að laun þessara aðila hækki þess í stað um 2,5%.

Dómarafélag Íslands telur sig knúið til að láta reyna á hvort lagabreytingarnar sem Alþingi samþykki, séu samrýmanlegar stjórnarskránni, komi til þess að lögin verði samþykkt.

„Dómurum er óljúft að karpa um kjör sín við hliðsetta handhafa ríkisvaldsins, en telja algjörlega óásættanlegt að aðrir en lögskipaðir aðilar, í þessu tilviki Kjaradómur, hafi afskipti af launum þeirra." Í lokin óskar stjórn Dómarafélagsins eftir því að fulltrúa hennar verði gefinn kostur á að mæta á fund þeirrar þingnefndar sem fær

frumvarpið til umfjöllunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×