Innlent

Vandinn liggur í slakri upplýsingagjöf

Kauphöllin
Kauphöllin MYND/GVA
Vandi íslenskra fyrirtækja er miklu frekar fólginn í slakri upplýsingagjöf en slökum stjórnarháttum, segir fjármálastjóri Danske Bank. Hann segir þann vanda engum nema stjórnendum sjálfum að kenna.

Tonny Thierry Andersen, fjármálastjóri Danske bank, var meðal ræðumanna á ráðstefnu Par X og Kauphallarinnar um stjórnarhætti fyrirtækja og fylgni við reglur. Hann fjallaði um hvernig Danske bank hefði sett sér skýrar reglur um stjórnarhætti til að byggja upp trúverðugleika sinn og sagði brýnt fyrir fyrirtæki að vinna að þessu, sérstaklega þau sem störfuðu á alþjóðlegum markaði.

Andersen sagði að af því sem hann hefði kynnt sér sýndist honum sem íslensk fyrirtæki þyrftu ekki að skammast sín fyrir hvernig þau fylgdu reglum um góða stjórnhætti. Hins vegar mætti ekki gleymast að upplýsingagjöf væri ekki síður mikilvæg en góðir stjórnhættir.

"Það er ykkar ábyrgð að taka frumkvæðið, og taka í ykkar hendur að móta góða stjórnunarhætt, vera öflug í upplýsingagjöf og samskiptum við aðra," sagði Andersen. "Þið getið ekki kennt öðrum um ef þeir skilja ekki fyrirtækið ykkar."

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði fyrirtæki hafa stóraukið fylgni sína við reglur Kauphallarinnar. Bæði hann og Tonny Andersen vísuðu í rannsóknir sem sýndu að það skilaði sér í hlutabréfaverði og arði fyrirtækja ef þau fylgdu skýrum reglum um stjórnarhætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×