Lífið

Fékk innblástur við lestur Einkamál.is

Kynlíf og ofbeldi Groddarastíll Tarantino fær að njóta sín í verkinu Kjöt sem er frumsýnt á ArtFart hátíðinni í kvöld.
Kynlíf og ofbeldi Groddarastíll Tarantino fær að njóta sín í verkinu Kjöt sem er frumsýnt á ArtFart hátíðinni í kvöld.

Í gamla Ó. Johnsson og Kaaber húsinu skapar hópurinn Brite Theater heim þar sem kynlíf er hluti af samfélagsskyldum hvers og eins.

Hugmyndin að baki verkinu er meðal annars það sem margir segja um að ástin sé vinna. Mér datt í hug að taka þetta konsept enn lengra og gera ástina í alvörunni að vinnu, segir Kolbrún Björt Sigfúsdóttir leikstjóri verksins sem hefur fengið heitið Kjöt. Í heiminum sem verkið gerist í er kynlífið hluti af samfélagsskyldu hvers og eins, rétt eins og að borga skatta, og þarf að skila ákveðið mörgum tímum af kynlífi á viku til að komast hjá sektum. Þetta er ráð ríkisstjórnarinnar gegn offitu og þunglyndi. Ef fólk fær nóg að ríða eru allir hamingjusamir, segir Kolbrún og bætir við að það sé að minnsta kosti hugmyndin að baki verkinu.

Kjöt er frumraun Kolbrúnar sem leikstjóri en hún hefur unnið í hópnum Rannsóknarsvið íslenskrar þjóðmenningar í skapandi sumarstarfi Hins hússins. Handritið að verkinu vann Kolbrún í sumar og sótti innblástur í vefsíðuna Einkamál.is og atvinnuauglýsingar. Mig langaði svolítið að blanda saman þessu atvinnutungumáli og hösslinu og komst að því að það er í rauninni mjög líkt.

Ásamt textanum eru hreyfingar og dans notaður til tjáningarinnar og studdist hópurinn við brasilísku bardagaíþróttina Capoeira í hreyfingasmíðunum. Kolbrún segir að tjáningarmáti leikhópsins sé í stíl við groddarhátt Tarantinos. Þetta er auðvitað um kynlíf og tilvísanir í það eru áberandi. Síðan erum við með mikið af bardagasenum þar sem Capoeira kemur inn og sviðsslagsmál.

Aðspurð um hvort markhópur sýningarinnar sé fólk á öllum aldri segir Kolbrún að ung börn eigi ekki erindi á hana. Við mælum kannski ekki með að börn yngri en tólf ára komi á sýninguna nema í fylgd með fullorðnum. Það er samt engin nekt í leikritinu en erum aftur á móti með mikið af vísunum í kynlíf. Svo eru nokkur bardagaatriði sem eru kannski dálítið brútal, segir Kolbrún.

Verkið var frumsýnt í gærkvöld á ArtFart hátíðinni. Í vikunni verða svo tvær sýningar ásamt lokasýningum á menningarnótt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×