Meiðsli miðjumannsins Joe Cole hjá Chelsea eru ekki eins alvarleg og óttast var í fyrstu og ætti hann að verða tilbúinn aftur í slaginn undir lok mánaðarins. Cole meiddist á hægra hné í æfingaferð ensku meistaranna um Bandaríkin. Talið var í fyrstu að hann hefði skaddað liðbönd í hné það illa að hann gæti ekki leikið í sex vikur.
„Hann verkjar enn í hnéð en bati hans er mjög hraður,“ sagði Steve Clarke, sem er í þjálfaraliði Chelsea. Það er ljóst að Cole getur ekki leikið vináttulandsleik með enska landsliðinu gegn Grikklandi hinn 16. ágúst.