Innlent

Fleiri óttast verðbólguna

42 prósent segjast telja að verðbólga muni aukast á komandi ári, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Könnunin var framkvæmd eftir að ASÍ, Samtök atvinnulífsins og ríkið kynntu samning sem tryggja á stöðugleika í launaþróun og ríkisstjórnin kynnti aðgerðir til að draga úr verðbólgu.

32 prósent aðspurðra telja að draga muni úr verðbólgu á komandi ári. 26 prósent telja að verðbólgan að ári muni standa í stað, en nú mælist hún átta prósent á ársgrundvelli.

Konur telja frekar en karlar að verðbólgan muni aukast á árinu en 46,1 prósent telja að hún haldi áfram að aukast, en 37,8 prósent karla. Þá telja 30,8 prósent kvenna að verðbólgan dragist saman á árinu, en 33,2 prósent karla eru sama sinnis. 29 prósent karla telja að verðbólgan muni hvorki aukast, né dragast saman á árinu og 23,1 prósent kvenna telja að hún muni standa í stað.

Minni munur er á afstöðu íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar, en 42,7 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins telja að verðbólga muni aukast á árinu, en 41,0 prósent svarenda á landsbyggðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×