Innlent

Stórt verslunarhúsnæði í Reykjanesbæ

MYND/Vilhelm Gunnarsson

Smáratorg, sem rekur meðal annars Rúmfatalagerinn, hyggst reisa 26 þúsund fermetra verslunarhúsnæði í Reykjanesbæ. Félagið hefur þegar fest kaup á lóð í bænum en áætlað er að framkvæmdir hefjist strax á næsta ári og að verslunarhúsnæðið verði tilbúið árið 2008.

Landið sem Smáratorg hefur tryggt sér var áður var nýtt undir körtubraut við Reykjanesbrautina. Að sögn Agnesar Geirsdóttur, framkvæmdastjóra Smáratorgs, sem kynnti hugmyndina á framkvæmdaþingi Reykjanesbæjar fyrir tæpum tveimur vikum hyggst fyrirtækið reisa sams konar verslunarhúsnæði í Reykjanesbæ og á Selfossi.

Vinna að teikningum á húsunum er á frumstigi en fyrstu teikninga er að vænta í maí. Á lóðinni í Reykjanesbæ verður gert ráð fyrir 23.500 fermetra verslunarhúsi þar sem Rúmfatalagerinn verður að finna, stóra matvöruverslun ásamt minni verslunum. Þá er gert ráð fyrir 1500 fermetrum undir bensínstöð á svæðinu og þúsund fermetrum undir veitingastað en ekki er ljóst hver það verður.

Aðspurð segir Agnes að ef allt gangi að óskum verði ráðist í framkvæmdirnar í bæði Reykjanesbæ og á Selfossi á næsta ári og er áætlað að þeim ljúki haustið 2008.

Eins og kunnugt er hafa menn töluverðar áhyggjur af atvinnumálum á Suðurnesjum eftir að bandarísk stjórnvöld tilkynntu að dregið yrði verulega úr starfsemi varnarliðsins á næstu mánuðum Agnes segist ekki geta spáð fyrir um hversu margir fái vinnu í hinum nýju verslunum í Reykjanesbæ enda vinna að verkefninu skammt á veg kominn. Þá bendir hún á að verslanirnar verði ekki opnaðar fyrr en á haustdögum 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×