Ákveðið hefur verið að gefa út leyfi fyrir því að veiða 50 hrefnur í vísindaskyni á þessu ári. Eftir að veiðunum lýkur verður búið að veiða 150 hrefnur af þeim 200 sem hvalrannsóknaáætlun Hafrannsóknastofnunarinnar gerði ráð fyrir.
Áætlunin var lögð fyrir vísindanefnd Alþjóða hvalveiðiráðsins árið 2003, í samræmi við reglur ráðsins. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir veiðum á 200 langreyðum, 100 sandreyðum og 200 hrefnum á rannsóknatímabilinu. Ekki hefur enn verið ákveðið hvenær hefja á framkvæmd langreyðar- og sandreyðarhluta áætlunarinnar. Hrefnuveiðarnar hófust sumarið 2003 en þær eru í samræmi við stofnsamning Alþjóða hvalveiðiráðsins.
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segist hafa ákveðið að skynsamlegt væri að ljúka rannsóknunum á tveimur árum. Ég taldi einboðið að stækka skammtinn úr 39 í 50 hrefnur á þessu ári til þess að ljúka rannsóknunum á skemmri tíma en annars hefði verið. Það hefur komið í ljós, þvert á það sem sumir héldu fram, að veiðarnar hafa haft mikið rannsóknarlegt gildi sem á eftir að nýtast okkur vel.
Í fréttatilkynningu sem Sjávarútvegsráðuneytið sendi frá sér í gær segir að vísbendingar séu um að stærð hrefnustofnsins geti haft veruleg áhrif á afrakstursgetu nytjafiska, meðal annars þorsks, en óvissa er um hversu mikil áhrifin eru, einkum vegna skorts á gögnum um fæðusamsetningu hrefnu hér við land.
Markmið rannsókna Hafrannsóknastofnunarinnar er að kanna betur hlutverk hrefnu í vistkerfi hafsins í kringum landið.
Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu og formaður íslensku sendinefndarinnar í Alþjóða hvalveiðiráðinu, segir skammtinn sem ákveðið hefur verið að veiða á þessu ári vera í samræmi við markmið sem ráðuneytið hefur sett.
Hann segir viðbúið að veiðunum verði mótmælt á fundi Alþjóða hvalveiðiráðsins. Það má búast við því að veiðum okkar verði mótmælt. Andstaðan við veiðarnar hefur þó aðallega beinst gegn veiðum Japana, enda þær í talsvert mikið meira magni en hjá öðrum þjóðum. En það er útlit fyrir að þjóðir sem styðja hvalveiðar nái hugsanlega meirihluta á næstunni, í fyrsta skipti í meira en tuttugu ár.