Sport

Schumi spenntur fyrir Melbourne

Michael Schumacher, ökumaður Ferrari í Formúlu 1 kappakstrinum, er að eigin sögn, tilbúinn í allar áskoranir á komandi keppnistímabili. Ef marka má undirbúningstímabilið standa lið Renault og McLaren einna sterkast að vígi til að veita Ferrariliðinu verðuga keppni í ár. "Allir eru með sína skoðun eftir prufuaksturinn hvernig hlutirnir munu þróast en enginn veit fyrir víst hvernig þetta fer," sagði Schumacher. "Ég get ekki beðið eftir að sjá útkomuna í Melbourne." Schumacher stefnir að sínum sjötta heimsmeistaratitli í röð í ár og gangi það eftir verður það áttundi titill Schumacher á ferlinum. Samkvæmt Schumacher mun nýji Ferraribíllinn, F2005, ekki þreyta frumraun sína fyrr en á Spáni í maí. "Við erum handviss um að með því að lengja þróunartímann erum við að taka rétta ákvörðun. Í fyrstu keppnunum munum við vera á mjög góðum bíl og síðan tekur við framúrskarandi bíll," sagði Schumacher kokhraustur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×