Erlent

Vikuferð út í geim fyrir milljarð

Bandarískur kaupsýslumaður, Gregory Olsen, er ásamt tveimur geimförum um borð í rússnesku Soyuz geimfari á leið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar, en þeim var skotið á loft frá Kasakstan í morgun. Olsen er þriðji maðurinn sem fær að ferðast út í geim gegn greiðslu. Soyuz geimfarinu var skotið á loft frá geimferðamiðstöðinni í Baikonur í Afganistan, að viðstöddu fjölmenni. Tveir geimfarar, Rússinn Valery Tokarev, og Bandaríkjamaðurinn William McArthur, eru um borð, ásamt bandaríska kaupsýslumanninum Gregory Olsen, en hann er sagður hafa greitt sem samsvarar rúmlega einum komma tveimur milljörðum íslenskra króna fyrir ferðalagið út í geim. Allt gekk samkvæmt áætlun í morgun og er haft eftir stjórnendum ferðarinnar að þremenningunum líði vel. Áætlað er að Soyuz komi til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar eftir tvo daga, en meðal verkefna geimfaranna er að fara með birgðir til stöðvarinnar. Gregory Olsen, sem er sextugur, mun dvelja um vikutíma í geimnum, en sjálfir geimfararnir áforma að starfa í geimstöðinni næstu mánuði, og fara aðrir geimfarar því tilbaka til jarðar með Soyuz geimfarinu. Ýmsir hafa gagnrýnt harðlega ferðalög kaupsýslumanna út í geim, gegn greiðslum, en Olsen sagði fyrir geimskotið í morgun að þátttaka hans væri nauðsynlegur þáttur í þróun geimferða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×