Erlent

Ósætti um yfirlýsingu SÞ

Hundrað og áttatíu þjóðarleiðtogar hittast í næsta mánuði til að undirrita tímamótayfirlýsingu um framtíð Sameinuðu þjóðanna. Óvíst er að þeir hafi nokkuð að undirrita þar sem Bandaríkjamenn eru ósáttir við yfirlýsinguna og tilvísanir til þróunaraðstoðar og umhverfisverndar. Tillögurnar sem Bandaríkjamenn eru svo mótfallnir eru frá Kofi Annan og setja Sameinuðu þjóðunum framtíðarmarkið sem átti að samþykkja á fundi í tilefni af sextíu ára afmæli samtakanna í ár. En ýmislegt bendir til þess að ekkert verði af því, þar sem John Bolton, hinn nýji og mjög umdeildi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur gert sjö hundruð og fimmtíu breytingartillögur við upphaflegar tillögur Annans. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur valið einskonar samningahóp skipaðan fulltrúum þrjátíu þjóða sem eiga að bjarga því sem bjargað verður. Viðræðurnar, sem eru hrein neyðarviðbrögð, hefjast þegar í næstu viku og miða að því að leysa deilur um sjö lykilmál, þar á meðal stríð og frið. Breytingar Bolton gjörbylta í raun því sem Annan lagði til og hefur þetta útspil stjórnvalda í Washington vakið litla hrifningu meðal fulltrúa fjölda annarra þjóða sem aðild eiga að Sameinuðu þjóðunum. Bolton leggur meðal annars til, fyrir hönd Bandaríkjanna, að þróunaraðstoð verði dregin saman. Búið er að strika út grein sem hvetur til þess að þjóðir stefni að því að leggja núll komma sjö prósent þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar fyrir árið 2015. Allar tilvísanir til þúsaldarsamþykktar Sameinuðu þjóðanna, sem Bandaríkin áttu aðild að, hafa verið fjarlægðar. Sömu sögu er að segja um vísanir til Kyoto-samkomulagsins og allt sem fjallar um baráttuna gegn gróðurhúsaáhrifum og hlýnun jarðar. Bolton strikar út allar greinar sem nefna alþjóðlega glæpadómstólinn sem er Bandaríkjamönnum þyrnir í augum og hafna öllu tali um að kjarnorkuvopnaveldi skeri niður vopnabúr sín. Í staðinn eru komnar greinar sem fjalla um mikilvægi baráttunnar gegn hryðjuverkum, mikilvægi frjálsra og opinna markaða og þess að breiða lýðræði út um allan heim. Diplómatar hjá Sameinuðu þjóðunum eru svartsýnir og óttast þrjósku Boltons. Þeir telja að fái Bandaríkin ekki sínu framgengt, verði engin yfirlýsing til að undirrita á fundi þjóðarleiðtoganna hundrað og áttatíu í september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×