Innlent

Flytja úr landi ef ekkert breytist

Í húsakynnum Flögu sem ákveðið hefur að flytja starfsemi sína úr landi.
Í húsakynnum Flögu sem ákveðið hefur að flytja starfsemi sína úr landi. MYND/Vísir

Íslensk hátæknifyrirtæki munu flytja starfsemi sína úr landi í stórum stíl ef ekkert verður að gert. Aðstæður hér á landi til reksturs slíkra fyrirtækja eru afar slæmar, meðal annars vegan sveiflna á gengi krónunnar. Þetta segir formaður Samtaka sprotafyrirtækja.

Á fjölmennum fundi Samtaka iðnaðarins í gær um stöðu hátækniiðnaðar á Íslandi kom fram að uppbygging þessarar greinar hér á landi er í mikilli hættu. Ljóst sé að hann mun standa í stað eða dragast saman verði ekkert að gert. Fundurinn kallar eftir stefnumótun af hálfu stjórnvalda í málefnum hátækni- og sprotafyrirtækja. Sveiflur í gengi krónunnar, og hið gríðarlega háa gengi hennar um þessar mundir, stefnir greininni í voða, að sögn Jóns Ágústs Þorsteinssonar, fomanns Samtaka sprotafyrirtækja.

Tuttugu og sjö fyrirtæki eru í samtökunum og starfa á bilinu fimm hundruð til þúsund manns innan þeirra. Mörg fyrirtæki hafa fengið tilboð frá öðrum löndum um að flytja starfsemina þangað, m.a. frá Norðurlöndunum, Kanada og Bretlandi, og hefur Flaga nú þegar ákveðið að flytja sína starfsemi frá Íslandi. Aðspurður hvað menn vilji að gert verði hér á landi svo íslensk hátæknifyrirtæki flytjist ekki unnvörpum úr landi segir Jón Ágúst að t.d. verði eitthvað að gera í sambandi við gengi krónunnar og setja mun meira fé í styrktarsjóði og rannsóknar- og þróunarstarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×