Innlent

Fá sömu eingreiðslu og aðrir

Sigursteinn Másson  formaður Öryrkjabandalagsins
Sigursteinn Másson formaður Öryrkjabandalagsins

Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í gær að öryrkjar, ellilífeyrisþegar og atvinnulausir fái um 26 þúsund króna eingreiðslu í desember líkt og um samdist á almenna vinnumarkaðnum fyrr í vikunni.

Eingreiðslan reiknast sem álag á tekju­tryggingu og er miðað við að hún komi til útborgunar 1. desember næstkomandi. "Þetta er allt að sjö hundruð milljónir króna í heildina tekið," segir Árni Mathiesen fjármálaráðherra.

Öryrkjabandalag Íslands fagnar því að öryrkjar, ellilífeyrisþegar og fólk á atvinnuleysisskrá fái eingreiðslu í samræmi við það sem um var samið á almennum vinnumarkaði. Um leið lýsir Öryrkjabandalagið fullum vilja til samráðs við stjórnvöld um málefni fatlaðra og æskir þess að fulltrúar heildarsamtaka þeirra fái aðild að fyrirhuguðu nefndarstarfi um breytingar á örorkumati.

"Mér finnst það gott að ríkisstjórnin skuli hafa munað eftir öldruðum í tengslum við þetta uppgjör," segir Borgþór Kærnested, framkvæmdastjóri Landssambands eldri borgara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×