Erlent

Boða byggingu kjarnorkuvera

Magnús Jóhannesson.Íslensk stjórnvöld óttast helst að frekari uppbygging kjarnorkuvera í Bretlandi leiði af sér aukna endurvinnslu í Sellafield.
Magnús Jóhannesson.Íslensk stjórnvöld óttast helst að frekari uppbygging kjarnorkuvera í Bretlandi leiði af sér aukna endurvinnslu í Sellafield.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í gær að ríkisstjórn hans væri alvarlega að hugleiða að stórauka raforkuframleiðslu sína með vinnslu kjarnorkueldsneytis. Stjórnvöld á Íslandi fylgjast grannt með þróun mála en telja of snemmt að hafa af þessu verulegar áhyggjur.

Blair hugðist kynna nýja orkumálastefnu ríkisstjórnarinnar á fundi samtaka iðnaðarins í Bretlandi í gær en nokkur töf varð á því þar sem félagar í samtökum grænfriðunga klifruðu upp í rjáfur ráðstefnusalarins og breiddu úr mótmælaborða sem á stóð: "Kjarnorka: Rangt svar." Ákveðið var að færa ráðstefnuna inn í lítinn hliðarsal en þar kröfðust grænfriðungarnir þess að fá að ávarpa fundinn áður en forsætisráðherra tæki til máls. Því var hins vegar hafnað og þeir færðir á brott í járnum. "Orkuverð hefur hækkað, framboð á eldsneyti er ekki tryggt. Breytingar á loftslagi jarðar kallar á brýna þörf," sagði Blair í ræðu sinni á þinginu þar sem hann ræddi um breytingar á orkumálastefnu stjórnarinnar.

Hann tjáði fundarmönnum að næsta sumar yrði gefin út sérstök stefnuskrá í þeim málaflokki þar sem að öllum líkindum verður boðuð uppbygging nýrrar kynslóðar kjarnorkuvera. Fimmtungur raforku Breta er framleiddur í tólf kjarnorkuverum landsins. Þau eru hins vegar komin til ára sinna og verði þau ekki endurnýjuð munu þau einungis framleiða fjögur prósent orkunnar árið 2010.

Forkólfar atvinnulífsins telja að öruggt og nægt framboð raforku sé brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar. Hækkandi raforkuverð og auknar kröfur um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda geri það að verkum að nauðsynlegt sé að leita nýrra orkugjafa. Umhverfisverndarsinnar benda aftur á móti á að hættulegur kjarnorkuúrgangur falli alltaf til við slíka vinnslu sem taki tugþúsundir ára að brotna niður. Auk þess er aldrei hægt að útiloka slys í kjarnorkuverum, ekki síst á tímum vaxandi hryðjuverkahættu. Þótt möguleikinn á því sé lítill þá yrðu afleiðingarnar af slíku geigvænlegar.

Íslensk stjórnvöld hafa lengi haft áhyggjur af meðhöndlun kjarnorku á Bretlandseyjum, sérstaklega kjarnorkuendurvinnslu á borð við þá sem stunduð er í Sellafield í Englandi. Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, segir þótt áfram verði grannt fylgst með framvindu mála sé ekki enn þá ástæða til að bregðast sérstaklega við þessum áformum Breta sem kynnt voru í gær. "Ef þau liggja hins vegar í að auka endurvinnsluna í Sellafield þá myndum við að sjálfsögðu af fremsta megni leggjast gegn þeim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×