Innlent

Allt að 157 prósenta verðmunur

Mikill munur var á hæsta og lægsta verði 30 vörutegunda í verðkönnun ASÍ á tilbúnum réttum og drykkjarvörum. Bónus var með lægsta verðið á 21 af 30 vörum. 10-11 var með hæsta verðið í jafn mörgum tilfellum og 11-11 í sautján tilfellum, í sumum tilfellum var fleiri en ein verslum með hæsta verð sumra vara. Mest munaði 157 prósentum á verði tveggja lítra flösku af Coca Cola. Minnst kostaði flaskan 89 krónur í Nettó í Mjódd en mest 229 krónur í 11-11 í Gilsbúð í Garðabæ. Þá leiddi verðkönnunin í ljós að mjólkurlítrinn er alltaf dýrari ef hann er keyptur í 1,5 lítra fernu en ef hann er keyptur í eins lítra fernu, munaði allt að átján krónur á lítraverði. Lítrinn af Coca Cola er hins vegar dýrari ef keypt er eins lítra flaska en ef keypt er tveggja lítra flaska og munaði allt að níutíu krónum á lítranum. Kannað var verð í eftirtöldum verslunum. Hagkaupum Kringlunni, Krónunni Lágholtsvegi, Fjarðarkaupum Hólshrauni 1b, Ellefu-ellefu Gilsbúð 1, Bónus Faxafeni, Nettó í Mjódd, Tíu-ellefu Glæsibæ, Samkaupum Miðvangi 41, Nóatúni Nóatúni 17, og Kaskó Vesturbergi 76. Gripið og greitt Skútuvogi 4 neituðu þátttöku vegna breytinga í versluninni. Töflu með niðurstöðum könnunarinnar má finna á vef ASÍ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×