Erlent

Reyna að hindra kosningar í Írak

Fimmtán Írakar og bandarískur hermaður liggja í valnum eftir átök dagsins í Írak. Uppreisnarmenn þar eru staðráðnir í að koma í veg fyrir kosningarnar á sunnudaginn með öllum ráðum. Eins og hér á landi eru það skólar sem notaðir eru sem kjörstaðir í Írak og fyrir vikið eru þeir skotmörk uppreisnar- og hryðjuverkamanna. Í morgun voru til að mynda gerðar árásir á skóla í tveimur hverfum í Bagdad. Sex lögreglustöðvar voru einnig á listanum yfir skotmörk í morgun. Sprengja sprakk nærri herbílalest í Kirkuk og lögreglumaður var þar skotinn til bana. Tveir Írakar fórust þegar heimatilbúin sprengja sprakk í bænum Tarmiyah og í Samarra, norður af Bagdad, féllu þrír óbreyttir borgarar þegar sprengja sprakk í vegkantinum og írakskur hermaður og tveir vegfarendur fórust í annarri sprengingu. Í Bakúba féll lögreglumaður í sjálfsmorðssprengjuárás og túlkur fórst í sprengingu í Tíkrít. Hryðjuverkamönnunum virðist takast ætlunarverk sitt að hluta til. Af ótta við árásir þora margir frambjóðendanna í kosningunum á sunnudaginn ekki að gefa upp nafn sitt heldur bjóða sig fram undir nafnleynd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×