Innlent

Leitað til erlends vinnuafls

Hundruð starfa eru auglýst hjá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins en það er erfitt að fá Íslendinga til að vinna þessi störf. Forstöðumaður vinnumiðlunarinnar telur að með tilkomu erlendra starfsmannaleiga muni útlendingar í auknum mæli inna þessi störf af hendi. Listarnir eru langir þar sem auglýst er eftir fólki í margvísleg störf um allt land. Meðal annars er auglýst eftir 75 verkamönnum á Reyðarfjörð og í auglýsingu sem hangir uppi í húsakynnum Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins segir að ef Íslendingar fáist ekki til að vinna störfin þá verði leitað eftir erlendu vinnuafli. Í Reykjavík eru 2700 manns atvinnulausir og á landinu öllu eru þeir fjögur þúsund. Hugrún Jóhannesdóttir, forstöðumaður Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins, segir þróunina á vinnumarkaðnum hér á Íslandi vera svipaða og annars staðar á Norðurlöndum. Hún segir aðspurð að það sé ákveðin tilhneiging í þá átt hér á landi eins og annnars staðar að Íslendingar vilji ekki vinna láglaunastörf eða verkamannastörf. Aðspurð hvort erlendar starfsmannaleigur sem verið hafa að hasla sér völl hér á landi hafi skaðað vinnumarkaðinn fyrir Íslendinga segir Hugrún erfitt að segja til um það. Starfsmannaleigurnar séu svo nýtilkomnar og áhrif þeirra hafi aðallega verið að Kárahnjúkum. Henni þykir þó annað ólíklegt ef hingað kæmi verulegur fjöldi fólks sem vildi vinna fyrir lægri laun en gengur og gerist hér á landi. Hugrún segir að þrátt fyrir að talsvert berist af fyrirspurnum til vinnumiðlunarinnar vegna starfanna fyrir austan sé áhugi Íslendinga ekki mikill á þeim. Hún telur þessa þróun halda áfram, þ.e. að áhugi Íslendinga á verkamannastörfum muni enn minnka og erlent vinnuafl komi í þeirra stað. Allt bendi til þess, að minnsta kosti á meðan á virkjanaframkvæmdunum standi en spurnig sé hvað gerist eftir það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×