Erlent

Sýndi enga iðrun

Edgar Ray Killen fékk í gær sextíu ára fangelsisdóm, tuttugu ár fyrir hvert mannsdrápanna þriggja sem hann var sakfelldur fyrir á þriðjudag. Killen var talinn hafa leitt hóp Klu Klux Klan-manna sem myrtu þrjá baráttumenn fyrir mannréttindum árið 1964. Sjö af samverkamönnum Killen voru dæmdir fyrir morðin árið 1967, en enginn þeirra sat lengur inni en sex ár. Killen, sem var prestur, var ekki sakfelldur þá þar sem einn kviðdómendanna sagðist ekki geta sakfellt prest. Killen sýndi engin svipbrigði þegar dómurinn var lesinn upp. Karlmennirnir sem voru myrtir voru allir í kringum tvítugt. Tveir þeirra höfðu sérstaklega ferðast frá New York til Missisippi til að hjálpa blökkumönnum að skrá sig sem kjósendur. Morðin á þremenningunum vöktu mikinn óhug í Bandaríkjunum og ýttu undir það að löggjöf sem staðfesti borgaraleg réttindi blökkumanna var samþykkt sama ár. Myndin "Missisippi Burning" frá árinu 1988 var byggð á þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×