Erlent

Hálft ár liðið frá flóðbylgju

"Það er ekki mikil uppbygging komin af stað en okkur sýnist sem þetta geti farið að gerast núna," segir Ómar Valdimarsson, starfsmaður Rauða krossins í Indónesíu. Í dag er hálft ár liðið síðan flóðbylgja reið yfir Bengalflóa á annan dag jóla. Yfir 200 þúsund manns létust í flóðbylgjunni og milljónir misstu heimili sín. Aceh-hérað í Indónesíu varð verst úti í flóðbylgjunni en þar létust yfir 130 þúsund manns. "Stjórnvöld hér lögðu upp með það fljótlega að gera allsherjaráætlun fyrir uppbygginguna en hún var ekki tilbúin fyrr en í apríl. Það var eiginlega ekki fyrr en eftir það að menn gátu farið að átta sig á því hvað ætti að gera og hvar ætti að byrja og það er í raun ekki alveg komið í ljós ennþá," segir Ómar Valdimarsson. "Allt skipulag, allir innviðir og allt kerfið er bara horfið og það hlýtur að taka langan tíma að byggja það upp," bætir Ómar við. Aðspurður hvernig umhorfs sé fyrir íbúa Aceh-héraðs nú hálfu ári síðar segir Ómar: "Tiltölulega fljótlega voru byggð eins konar bráðabirgðaskýli. Þetta eru einfaldar húsalengjur, sem er ekkert óvenjulegt hér í Indónesíu. Þetta eru löng hús sem margar fjölskyldur búa í og innangengt á milli. Það er þröngt um fólk og hreinlætisþjónusta er víða af skornum skammti. Erfitt er að koma fyrir salernum og víða er grunnt niður á grunnvatn og því ekki hægt að grafa kamra. Það hafa samt allir húsaskjól og talsverður hópur hefur getað farið heim. Svo fer nú að líða að því að það verði farið að byggja". "Það er enn talsvert um skjálfta á svæðinu og í hvert sinn sem ég hef komið til Aceh hef ég hrokkið að minnsta kosti einu sinni við jarðskjálfta þannig að fólk fær eiginlega aldrei tækifæri til að jafna sig," segir Ómar. Fólkið í Aceh er farið að reyna að lifa sínu eðlilega lífi, stunda sjóinn og rækta jörðina, en landið er víða mikið skemmt. Íbúar ættu þó að geta horft fram á betri tíð með aukinni uppbyggingu og skipulagi á svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×