Erlent

Sósíalistar sigra í Búlgaríu

Sósíalistaflokkurinn fékk flest atkvæði í þingkosningunum í Búlgaríu samkvæmt útgönguspám, en náði þó ekki hreinum meirihluta. Sósíalistar hlutu rúmlega 31 prósent atkvæða en flokkur Simeon Saxcoburggotski, sitjandi forsætisráðherra, hlaut tæp 22 prósent atkvæða. Talið er að kosningaþátttaka hafi verið um 60 prósent, sem er öllu lakara en í undangengnum kosningum. Lokaúrslit eru væntanleg á mánudag. Ef sósíalistar ná ekki hreinum meirihluta verða þeir að mynda samsteypustjórn. Hingað til hefur aðeins einn flokkur lýst sig reiðubúinn að mynda stjórn með þeim. Útgönguspár benda til að flokkarnir tveir nái ekki hreinum meirihluta á þinginu og því þyrfti þriðji flokkurinn að koma til sögunnar. Ríkisstjórn hefur ekki verið endurkjörin í Búlgaríu í fimmtán ár en sósíalistar sátu síðast í ríkisstjórn árið 1997. Hin nýja ríkisstjórn landsins mun meðal annars hafa það verk á sinni könnu að leiða landið inn í Evrópusambandið árið 2007.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×