Innlent

Vaknaði við að báturinn lak

"Skrúfa losnaði hjá inntaki við vél og upp kom leki," segir Reinhard Svavarsson, skipstjóri á Þjóðbjörgu GK-110. Reinhard komst í hann krappan á tíunda tímanum í gærmorgun þegar mikill leki kom að vélarrúmi Þjóðbjargarinnar, sem er níu tonna plastbátur, skráður í Grindavík. "Strákarnir hjá Gæslunni náðu að stöðva lekann," bætir Reinhard við. Hann hafði lagt sig og hrökk upp við ósköpin. Reinhard kallaði upp vaktstöð siglinga á neyðarrás klukkan 9.20 í gærmorgun. Hann var þá staddur þrettán sjómílur norðvestur af Garðskaga. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði til nærstaddra báta og óskaði eftir að þeir veittu aðstoð. Bátur var í um sjö sjómílna fjarlægð og hélt hann þegar af stað til hjálpar. Um klukkan tíu mínútur fyrir tíu voru tveir bátar komnir á vettvang. Þá var Reinhard kominn í flotgalla og amaði ekkert að honum. Sjór var kominn upp að merkingum og báturinn að fyllast. Gunnþór ÞH-75 tók Þjóðbjörgu í tog en björgunarbáturinn Hannes Þ. Hafstein frá Sandgerði leysti hann fljótlega af. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, var kölluð út en sneri fljótlega til baka þar sem hættan var liðin hjá. Varðskipið Ægir var statt á norðanverðum Faxaflóa og kom á vettvang með öflugar dælur og kafara sem náðu að dæla úr bátnum og komast fyrir lekann. Ægir fylgdi síðan Hannesi Þ. Hafstein og Þjóðbjörgu eftir til hafnar í Sandgerði en þangað var komið rétt rúmlega eitt eftir hádegi. "Ég ætla að flýta mér heim og fara í þurr föt," sagði Reinhard við komuna þegar hann hafði bundið landfestar á Þjóðbjörginni. Þjóðbjörg Gunnarsdóttir, kona Reinhards, tók á móti honum og urðu þar fagnaðarfundir. Mildi er að björgun hafi gengið þetta greiðlega þar sem lekinn var umtalsverður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×