Innlent

Uggur í leiksskólakennurum

Stjórn Félags leikskólakennara hvatti leikskólastjóra til þess að takmarka innritun barna, loka deildum eða stytta opnunartíma frekar en að láta ástandið sem nú hefur skapast á leikskólum vegna manneklu bitna á faglegu starfi og öryggi barnanna. Á fundi stjórnar félagsins sem haldinn var í gær hvatti stjórnin enn fremur sveitarfélög til að eyrnamerkja ekki einum hópi starfsmanna þær aukafjárveitingar sem þau veita vegna ástandsins. Þá segir í áskorun fundarins að vandinn verði ekki leystur til frambúðar nema ríki og sveitarfélög taki höndum saman og hækki hlutfalli faglærðra eftir einhverjum leiðum. Eins verði sveitarfélög að leiðrétta laun leikskólastarfsfólks svo leikskólar verði samkeppnishæfir við aðra vinnustaði um starfsfólk. Málið var einnig rætt í borgarráði og á fundi menntaráðs í gær. Stefán Jón Hafstein, formaður beggja ráða, segir að ræddar hafi verið skammtíma- og langtímalausnir á þessum vanda. "Skammtímalausnin felst aðallega í því að flýta samningum við starfsmenn og svo þarf að útfæra aukafjárveitinguna," segir Stefán Jón. Hvað langtímalausnir snertir segir hann að verið sé að ræða möguleika ófaglærðs leikskólastarfsfólks til að mennta sig til betri kjara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×