Erlent

Almenningur hundfúll út í Bush

Þrátt fyrir að leiðtogar Evrópu og Bandaríkjanna séu að sættast og grafa stríðsöxina er hinn almenni Evrópubúi enn þá hundfúll út í Bush Bandaríkjaforseta. Andstaðan endurspeglast í miklum mótmælum sem hafa brotist út hvar sem Bush hefur farið um Evrópu. Það er ekki hægt að segja annað en að þíða sé komin í samskiptin yfir Atlantsála í kjölfar heimsóknar Bush Bandaríkjaforseta til Evrópu. En þrátt fyrir það eru Evrópubúar engu jákvæðari í garð Bush og fólk hefur þust út á stræti hvar sem Bush ber niður til að mótmæla heimsókn hans. Yfir þúsund manns mótmæltu í kuldanum í Brussel í gær þegar Bush hitti leiðtoga aðildarríkja ESB og til átaka kom eftir að fólkið henti mólotov-sprengju og glerflöskum í átt að lögreglumönnum. Lögreglan greip til þess ráðs að sprauta vatni á mannfjöldann sem gafst þá fljótlega upp. Í Þýskalandi söfnuðust einnig mörg hundruð manna saman á götum úti í gær til þess að mótmæla heimsókn Bush. Þar lét fólk þó nægja að ganga um með mótmælaspjöld. Bush sat á fundi með Gerhard Schröder, kanslara Þýskalands, í morgun í borginni Mainz og þar var sama sagan, fólk mætti til að mótmæla. Gríðarleg öryggisgæsla í kringum Bush hefur líka hleypt illu blóði í íbúa Mainz sem eru ekki vanir slíku umstangi. Fólk hefur meðal annars verið flutt úr húsum sínum og niðurföll lokuð með rafsuðu til að koma í veg fyrir að árásarmenn geti komið fyrir sprengju til að granda forsetanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×